Gerðuberg

 

Maður hefur nú... Gunnar Reynir Sveinsson


21. apríl 2004

 

Gunnar Reynir SveinssonVetur verður kvaddur í Gerðubergi með tónleikum til heiðurs Gunnari Reyni Sveinssyni tónskáldi en Gunnar Reynir varð sjötugur í fyrra. Á tónleikunum munu vinir og velunnar heiðra tónskáldið með því að flytja tónlist hans. Á efnisskrá getur m.a. að heyra kórtónlist, einsöngslög, leikhústónlist og djass. Einungis er þó um brot af tónsmíðum tónskáldsins að ræða því ferill hans er afar fjölbreyttur. Tónsmíðastíll Gunnars Reynis spannar fjölmörg stílbrigði frá framúrstefnu og raftónlist til hins hefðbundna. Djass, blús og dægurlög bræðast saman við klassísku hefðina og andleg lög, trúartónlist og súrrealístiskir söngvar fléttast saman á óvæntan og óvenjulegan hátt í verkaflóru hans svo eitthvað sé nefnt.

Fram koma: Kammerkór Suðurlands undir stjórn Hilmars Ö. Agnarssonar, Djasskvartett Árna Schevings, Anna Sigríður Helgadóttir mezzósópran, Kristinn Örn Kristinsson píanóleikari, Hrólfur Sæmundsson baríton, Þórunn Lárusdóttir leikkona og fleiri. Kynnir er Viðar Eggertsson.

Aðgangseyrir á tónleikana er 1.200 kr
Tónleikarnir eru í samstarfi við Tónskáldafélag Íslands

Gunnar Reynir Sveinsson

Gunnar Reynir fæddist i Reykjavík árið 1933. Hann hóf ungur hljóðfæranám á slagverkshljóðfæri en einbeitti sér snemma að víbrafónleik. Hann var um árabil einn af fremstu djassistum okkar og lék með frægum djössurum, víða um lönd (Ronnie Scott, Chet Baker, Lee Konitz, Grappelli, Sven Asmundssen o.fl.) Hann stundaði nám í tónsmíðum og tónfræðum hjá Jóni Þórarinssyni við Tónlistarskólann  í Reykjavík og útskifaðist árið 1961. Hann var við framhaldsnám við Amsterdams Conservatorium á árunum 1964-68. Aðalkennari hans var Ton de Leeuw, eitt frægasta tónskáld Hollands. Þá dvaldi hann við nám í raftónlist, 1973-75, í Utrecht við Institut voor Sonologie, undir handleiðslu Gottfried Michael Königs, einum helsta frumkvöðli raf- og tölvutónlistar í heiminum. Gunnar Reynir er afkastamikið tónskáld og er verkalisti hans fjölskrúðugur. Má þar nefna Samstæður, kammerdjass fyrir kvintett; Missa piccola fyrirblandaðan kór, einsöngvara, flautu og orgel; Burtflognir pappírsfuglar og Bréfbátar í rigningu fyrir blásarakvintett; Net til að veiða vindinn og Ég sá sólskinið koma gangandi  fyrir strengjakvartett; Hveralitir fyrir píanó; sönglagabálkana Úr saungbók Garðars Hólm (Halldór Kiljan Laxness), Undanhald samkvæmt áætlun (Steinn Steinarr), Tónmyndaljóð og Hlér og kenndir (Hrafn Andrés Harðarson). Þá ber að nefna söngleikina Undir suðvesturhimni (Sigurður Pálsson) og Fögruveröld (Tómas Guðmundsson), kvikmyndatónlistina við Land og syni og Kristnihald undir jökli; loks leikhústónlistina við Stundarfrið (Guðmundur Steinsson) og Dag vonar (Birgir Sigurðsson). Eru þá enn óupptaldar margvíslegar þjóðlagaútsetningar, einleiksverk fyrir píanó og orgel og skondin dægurlög eins og Maður hefur nú… og fjölmörg tækifærisverk.

2010